Að lifa bitlausu lífi

Líklega verða Suarez og Sturridge ekki samherjar á næstu leiktíð

Líklega verða Suarez og Sturridge ekki samherjar á næstu leiktíð

Nær óhjákvæmilegt virðist vera að Luis Suarez muni enda dvöl sína hjá Liverpool í sumar eftir að viðræður milli Liverpool og Barcelona virðast langt á leið komnar. Það eru því líklega ekki margir dagar eftir af tíma Suarez á Anfield.

Suarez hefur skemmt mér og öðrum aðdáendum Liverpool með frábærum fótbolta, sterkum karakter einkennum og gífurlegum sigurvilja. Það leynir sér ekki að Suarez er einstakur leikmaður, einn sá besti í heiminum og á engan sér líkan, hvernig gæti Liverpool tekist að lifa af án hans? Hvernig getur Liverpool lifað bitlausu lífi?

Í pistlinum hér fyrir neðan tala ég um Daniel Sturridge og hve hlutverk hans og mikilvægi getur komið til með að aukast í kjölfar brottfarar Luis Suarez. Það gæti því verið að Liverpool leggji upp með að reyna að ná sem mestu út úr styrkleikjum Sturridge á næstu leiktíð en ég fer nánar út í hverjir þeir eru hér í færslunni fyrir neðan.

Í dag ætla ég að reyna að skoða út frá þeim leikmönnum sem eru orðaðir við félagið í kjölfar sölu á Suarez, hugsanlegar uppstillingar og leikkerfi sem gætu nýst þeim leikmönnum og þeim sem fyrir eru hvað best. Ég ætla að reyna að setja mig í hugarheim Brendan Rodgers og reyna að skoða hvað hann gæti komið til með að gera. Mun hann breyta kerfinu, leikstílnum eða nálgun sinni í leikjum á næstu leiktíð?

Þeir sem fyrir eru

Pressan á Lallana og Sturridge mun koma til með að aukast

Pressan á Lallana og Sturridge mun koma til með að aukast

Suarez var óneitanlega risastór partur af velgengni Liverpool á síðustu leiktíð, leikmaður með yfir 30 deildarmörk og vel yfir 10 beinar stoðsendingar er risastór þáttur í að liðið kom sér í titilbaráttu og tryggði sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu eftir langa bið. Hann var óneitanlega stór þáttur en ekki eini stóri þátturinn.

Daniel Sturridge, næst markahæsti leikmaður deildarinnar á síðustu leiktíð og skapaði mörg mörk fyrir samherja sína líka, fór á kostum og er líklega sá sem verður leitað einna mest til í markaskorun á síðustu leiktíð. Raheem Sterling átti frábæran seinni part á síðustuleiktíð og var farinn að koma sér í góðar stöður til að auka markafjölda sinn og stoðsendingar sem veit á gott því ef hann nær að halda þeim dampi á næstu leiktíð þá veit það á gott.

Martin Skrtel sá um að skora mörg mikilvæg mörk í fyrra og var gífurlega sterkur í föstum leikatriðum, líkt og fleiri leikmenn Liverpool voru. Fyrirgjafir Steven Gerrard gætu því reynst aftur mjög mikilvægar á næstu leiktíð og þær voru á þeirri síðustu. Jordan Henderson, Joe Allen og Philippe Coutinho léku allir mjög vel á síðustu leiktíð en hugsanlega þyrftu þeir að ná fleiri mörkum en þeir gerðu í fyrra.

Nýju sóknarkaup liðsins, tvíeykið frá Southampton Adam Lallana og Rickie Lambert koma inn í hópinn og eiga báðir sameiginlegt að vera bæði góðir í að koma sér í stöðu til að skora sjálfir og jafnframt duglegir að leggja upp fyrir samherja sína. Þeir eiga því líklega eftir að passa mjög vel í hópinn á næstu leiktíð. Fabio Borini sem var á láni hjá Sunderland á síðustu leiktíð hefur núið aftur og gæti verið að hann fái aftur tækifæri hjá Liverpool og sömuleiðis Jordon Ibe sem var á láni hjá Birmingham, báðir gætu hugsanlega komið inn í hópinn og lagt sitt að mörkum.

Þetta eru líklega þeir leikmenn sem fyrir eru hjá liðinu og Rodgers mun horfa til í baráttu sinni við að fylla skarðið sem Suarez kemur til með að skilja eftir sig.

Nýjir leikmenn

Alexis Sanchez er einn þeirra sem Rodgers vill fá í stað Suarez

Alexis Sanchez er einn þeirra sem Rodgers vill fá í stað Suarez

Þá vandast málið. Hverja mun Liverpool leitast eftir að fá til að taka við keflinu af Suarez? Nú þegar hafa Lambert og Lallana bæst í hópinn en að öllum líkindum munu fleiri bætast við.

Alexis Sanchez sóknarmaður Barcelona hefur verið nefndur til sögunar og samkvæmt öllum áreiðanlegustu heimildum frá Spáni og Egnlandi þá hefur Liverpool rætt við Barcelona um að fá hann í sínar raðir, annað hvort í sér díl eða sem hluta af kaupverðinu fyrir Liverpool. Hann hins vegar nýtur mikils áhuga frá öðrum liðum og gæti því reynst verkefni fyrir Liverpool að sannfæra hann um að koma á Anfield.

Það er auðvelt að sjá í Sanchez hvað hann gæti komið til með að færa Liverpool. Hann er með gífurlega tækni, býr yfir miklum hraða og er afkastamikill þegar hann kemst í góða stöðu í og við teiginn. Hann getur leyst af margar stöður og mörg hlutverk og er á besta aldri, það er því ekki skrítið ef Liverpool hefur eyrnamerkt hann sem sitt aðalskotmark til að fylla skarð Suarez. Hvort hann sé tilbúinn að koma á Anfield eða ekki verður líklega bara að koma í ljós en hann er líklega einn af þeim sem gæti komið inn með hvað mest án þess að þurfa kannski tíma til að vaxa inn í stórt hlutverk eða þurfa tíma til að vaxa sem leikmaður áður en að afköstin fara að vera þau sem þau þyrftu að vera.

Annað nafn sem er talið líklegt og hugsanlega þá einhver sem gæti komið inn ef Sanchez kæmi ekki er Xerdan Shaqiri leikmaður Bayern Munchen og stórstjarna svissneska landsliðsins. Hann hefur ekki átt fast sæti í liði Bayern Munchen síðan hann kom þaðan frá Basel en býr engu að síður yfir miklum hæfileikum. Shaqiri sem er vaxinn eins og fermeter, jafn breiður og hann er lágur í loftinu, býr yfir miklum hraða, tækni og miklum líkamlegum styrk. Hann getur leyst allar sóknarstöðurnar fyrir aftan og við hlið framherjans þannig að fjölhæfni hans og kraftur heillar líklega margan þjálfaran. Hængur á hans leik er að hann hefur kannski of mikið að sanna, svipað og virtist vera með Sturridge hjá Chelsea, og hann virðist oft reyna að gera sig að „aðalmanninum“ í sókninni og virðist oft senda á samherja sína með það í huga að þeir skulu senda á hann aftur. Kannski rangt en líklega eitthvað sem hægt er að vinna með honum við að laga fái hann meira öryggi varðandi stöðu og hlutverk.

Lazar Markovic er sá yngsti af þessum þremur sem hafa verið hvað helst nefndir til sögunar til að fylla skarð Suarez í liðinu. Hann spilar með Benfica í Portúgal og þykir vera einn sá efnilegasti í Evrópu. Hann spilar báðar kantstöðurnar, í holunni og sem framherji. Hann er duglegur, vinnur vel til baka og er öflugur í sóknarleiknum með mikla tækni og hraða sem gerir honum kleyft að taka marga varnarmenn úr leik þegar hann tekur á rás – svipað og t.d. Gareth Bale gerir svo rosalega vel. Spurningarmerki má setja við Markovic vegna þess að hann er sá reynsluminnsti af þessum þremur sem nefndir hafa verið en hefur engu að síður spilað með Benfica í Evrópudeildinni og á að baki all nokkra leiki í portúgölsku deildinni. Hugsanlega þess virði að næla í núna og njóta þess í framtíðinni frekar en að ætlast til að hann verði sá maður sem reynir að fylla skarð Suarez.

Belginn ungi Divock Origi er talinn afar líklegur til að ganga til liðs við Liverpool þegar Belgar detta út, tja eða vinna, HM. Hann er nítján ára framherji með aðeins eitt tímabil að baki hjá Lille og er talinn líklegur til að fara aftur á láni til Lille ef að kaupum á honum verður og því kannski ekki þörf á að ræða hann sem skammtíma lausn til að fylla þetta skarð, þó hann gæti klárlega orðið stór í framtíðinni.

Hugsanlega þá gæti enginn þessara leikmanna komið og einhverjir allt aðrir gert það, hins vegar þá virðist svipaðar hugmyndir liggja á bak við þá alla. Þeir eru hraðir, leiknir og fjölhæfir og virðist það ætla að vera það sem leitast verður eftir.

Wildcard og hraði vs. effektív vél

Mun Rodgers breyta einhverju í leik Liverpool?

Mun Rodgers breyta einhverju í leik Liverpool?

Í fyrra sáum við tvenns konar lið Liverpool. Við munum eftir fljúgandi liði Liverpool sem pressaði hátt, spilaði hratt og menn reyndu hluti sem engum hefði átt að detta í hug að reyna – en það gekk! Luis Suarez fór hamförum þar og þar nýttist wildcard-ið sem hann er heldur betur. Leikmenn gerðu það sem þeim datt í hug og reyndist það vera mikill styrkleiki hjá liðinu.

Nú er Suarez að öllum líkindum að fara og þá kannski „hverfur“ wildcard-ið sem honum fylgdi því eins og áður segir þá er enginn eins og hann. Það er því spurning hvort Rodgers ákveði að koma meiri reglu á „óreiðuna“  sem sóknarleikur liðsins var í fyrra. Þá horfir maður til fyrstu leikja tímabilsins í fyrra, þegar Suarez var í banni, þá virkaði liðið ögn „vélrænna“ en á seinni partinum, menn sprungu ekki eins mikið út í sóknarleiknum en það skilaði sér í „öruggum“ sigrum þar sem liðið gerði það sem þurfti til að vinna. Liðið var agað, þétt til baka og gerði sitt í sóknarleiknum þó eflaust hefðu nokkrir sigrar mátt vera stærri.

Það er því spurning hvort Rodgers hyggist færa sig smá úr þessum all guns blazing fótbolta sem liðið lék á síðustu leiktíð og reyna að koma meira jafnvægi í liðið. Byggja frá vörninni, stjórna leikjunum betur og reyna að vinna leikina öruggara en raunin var oft í fyrra. Hugsanlega með því að þétta miðjuna og vörnina, fá meiri gæði á kantana sem vonandi myndi skila sér í auknum mörkum gæti komið betri lögun og reglu á liðið. Ég er ekki viss um að Rodgers muni á nokkurn hátt reyna að halda aftur af leikmönnum sínum og hvetji þá til að gera það sem þeim dettur í hug en hann gæti reynt að þétta liðið og gera það traustara. Getur hann gert það traustara án þess að breyta einhverju við nálgunina á síðustu leiktíð?

Sama hvað Rodgers kemur til með að gera þá verða næstu vikur afar forvitnilegar. Hvað hugsar hann að þurfi að gera til að fylla skarðið, mun hann breta nálgun, mun hann leggja enn meira í sölurnar til að skora fleiri mörk, breytir hann uppstillingu og leikkerfi? Það er fullt af áhugaverðum spurningum sem við munum vonandi fá svör við fljótlega.