Scott Dann og miðvarðastaðan

Svo virðist sem að Birmingham City stefni í gjaldþrot, skelfilegar fréttir fyrir félagið og stuðningsmenn þess, en gæti verið gullið tækifæri fyrir Liverpool að krækja í miðvörðinn Scott Dann. Liverpool er talið hafa haft áhuga á leikmanninum í nokkurn tima en þar sem Birmingham hefur farið fram á of hátt verð þá virðist sem Liverpool hafi ákveðið að horfa annað eða eitthvað á þá leið.

Það gæti hins vegar verið að núna muni Liverpool láta til skarar skríða og leggja fram tilboð í Dann þar sem að staða Birmingham er þannig að erfitt gæti verið fyrir þá að hafna tilboðum í leikmanninn þessa stundina. Ég mun allavega vona það að Liverpool freisti þess að fá þennan stuðningsmann Liverpool í sínar raðir.

Liverpool er með mjög marga miðveði í sínum röðum, jafnvel of marga ef við lítum á það þannig. Við erum með fjóra aðalliðsmiðverði í þeim Daniel Agger, Martin Skrtel, Jamie Carragher og Sotiris Kyrgiakos, og svo erum við með þrjá mjög efnilega miðverði í liðinu Danny Wilson, Andre Wisdom og Daniel Ayala. Það er því nokkuð augljóst að við erum vel mannaðir í þessari stöðu en það mætti alltaf bæta í gæðin í hópnum og það myndi Dann klárlega gera.

Við sáum það nokkuð augljóslega að Liverpool vill styrkja vörnina og félagið virðist vera tilbúið að ganga langt í leit sinni að réttu leikmönnunum til að styrkja varnarlínu sína. Í janúar heyrðust orðrómar um að félagið hafi boðið allt að 20 milljónir punda í Micah Richards, leikmann Manchester City, og áður en Phil Jones gekk til liðs við Manchester United frá Blackburn þá var Liverpool tilbúið að greiða allt að 16-20 milljónir punda fyrir þann strák og hann er aðeins nítján ára. Þannig það er áhugi á að fá miðvörð til liðsins og er ég alveg viðbúinn því að einn miðvörður komi til félagsins í sumar og er Dann mjög líklegur kostur.

Það þarf líklega að rýma aðeins til í miðvarðarhópnum og gæti ég vel séð Wilson og Ayala fara á lán til annars liðs til að næla sér í mikilvægar mínútur í reynslubankann og ég gæti vel trúað því að félagið sé tilbúið að skoða tilboð í Daniel Agger og Sotiris Kyrgiakos. Ég held að meiðslasaga Daniel Agger gæti þýtt að hann sé líklegur til að halda út um dyrnar til að rýma menn af launaskrá og aldur Kyrgiakos er líklega eitthvað sem félagið tekur inn í reikninginn ef tilboð í hann berst félaginu. Ég held að Martin Skrtel og Jamie Carragher séu nokkuð öruggir á að vera áfram hjá félaginu, það þarf ekki að útskýra þetta með Carragher en Skrtel held ég að sé mikils metinn á Anfield og efitr að hafa spilað vel undir lok síðustu leiktíðar þá held ég að það gæti þurft frekar stórt tilboð til að Liverpool væri til í að selja.

Þar sem Dann þykir mjög líklegur þessa stundina þá verð ég að viðurkenna það að mér litist ágætlega á hann sem leikmann Liverpool. Hann er stór og sterkur, harður í tæklingunum og sterkur í skallaeinvígum. Hann er agaður og traustur í leik sínum. Hann hefur tiltölulegan hraða í sínum leik, hann leynir alveg töluvert á sér á því sviði, og hann er ágætis spilari – hann er engin Daniel Agger þegar kemur að því að spila boltanum en hann er yfir „meðallagi“ á þessu sviði. Fyrir nokkrum vikum var talað um að Birmingham vildi fá hátt í 10 milljónir punda fyrir hann, jafnvel meira, en í kjölfari fregna af gjaldþroti Birmingham þá vonandi lækkar verðmiðinn á honum töluvert en baráttan um leikmanninn mun vera mikil og því gæti komið smá stríð milli félaga sem vilja fá hann í sínar raðir en þar sem hann er Scouse, stuðningsmaður Liverpool og fyrrum ársmiðahafi á Anfield þá verður það að segjast að Liverpool hefur stóran ás upp í erminni í þessari baráttu.


Á Pacheco framtíð hjá LFC?

Í dag eru eitthvað í kringum fjögur ár síðan Liverpool klófesti bráðefnilegan framherja úr unglingaliði Barcelona að nafni Daniel Pacheco. Hann var ekki lengi að slá í gegn með unglingaliði Liverpool, var fljótt orðinn lykilmaður í varaliðinu og eftir að hafa virkað á öðru „leveli“ en margir samherjar og andstæðingar hans í varaliðsdeildinni þá fékk hann tækifæri með aðalliðinu.

Hann var aðeins átján ára þegar hann kom í fyrsta sinn við sögu í aðalliðsleik en þá kom hann inn á sem skiptimaður fyrir Alberto Aquilani í leik gegn Fiorentina í Meistaradeildinni og fyrsti deildarleikur hans kom tveimur vikum seinna þegar hann leysti einnig Aquilani af hólmi. Síðan þá hefur hann eingöngu leikið 14 leiki fyrir liðið í öllum keppnum og 11 af þeim skiptum þá hefur hann þurft að koma af bekknum.

Þegar hann kom þá var Rafa Benítez við stjórn og gaf hann honum fyrstu aðalliðsleiki sína, Roy Hodgson gaf honum einhverja leiki þegar hann var við völd en hann hefur ekki spilað fyrir Kenny Dalglish síðan hann tók við liðinu í janúar og var Pacheco sendur á lán til Norwich undir stjórn Dalglish.

Hjá Norwich hjálpaði hann liðinu að komast upp í Úrvalsdeild og spilaði nokkuð stórt hlutverk hjá liðinu. Hann sýndi lipra takta, lagði upp mörk og skoraði tvö mörk í sex leikjum sjálfur. Flottur lánssamningur sem virðist hafa gefið honum smjörþefinn af því hvernig er að vera mikilvægur í aðalliði. Maður hefur verið var við að margir stuðningsmenn Liverpool hafa lagst á bæn um að þessi ungi og efnilegi strákur fari að festa sig betur í aðalliðinu og eftir að haf séð hann ná árangri á láni hjá Norwich þá hafa þær raddir hækkað.

Allt gott og gilt en persónulega er ég orðinn frekar lítið spenntur fyrir honum. Fyrir tveimur til fjórum árum síðan þurfti ég að klemma saman lærin svo ég pissaði ekki á mig af spenningi en margt virðist hafa breyst undanfarið. Ég er nefnilega farinn að hafa rosa litla trú á að þessi strákur, sem er með fullt af hæfileikum, nái nokkurn tíman að festa sig í sessi hjá Liverpool.

Ég hef svo sem ekkert fyrir mér í þessum efnum enda þekki ég ekki til þess hvernig hann æfir eða hvernig hann hugsar en að mörgu leyti þá skynja ég hann bara ekki jafn „hungraðan“ í að sanna sig og festa sig í aðalliðinu. Ef við skoðum hungrið, kraftinn og viljann sem leikmenn eins og Kelly, Flanagan, Spearing, Robinson og fleiri hafa sýnt þegar þeir hafa fengið tækifæri í aðalliðinu. Þetta finnst mér Pacheco ekki sýna jafn áberandi mikið og hinir. Það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að þrír ólíkir þjálfarar hafi verið tregir til að spila honum í aðalliðinu.

Kannski telja þeir hann ekki nægilega góðan, telja hann ekki reiðubúinn í aðalliðið eða koma honum bara ekki fyrir. Hver svo sem ástæðan er þá held ég að Pacheco hafi ekki mikla framtíð hjá Liverpool og spái ég því að hann fari í sumar, annað hvort á láni eða verði seldur til annars liðs. Þegar september rennur í hlað þá verð ég mjög hissa ef Pacheco verður enn í leikmannahópi Liverpool – ég vona enn að hann nái að uppfylla væntingarnar sem við höfum líklega öll gert til hann. Hvað haldið þið, á hann framtíð hjá Liverpool?


Er þörf á fleiri kaupum?

Það er nú orðið alltof langt síðan ég gaf mér tíma til að henda saman í einn pistil eða svo en eftir að hafa haft hausinn á fullan af vangaveltum núna síðustu tvo til þrjá daga þá ákvað ég nú að láta loks til skarar skríða.

Málið er að það er tvennt sem hefur fengið mig svolítið til að hugsa um aðgerðir á leikmannamarkaðnum, Liverpool-liðið eins og það er í dag og eitthvað í þeim dúr. Í fyrsta lagi voru það orð Damien Comolli þegar hann tjáði sig um kaupin á Stewart Downing, sem ég er mjög svo ánægður með, og í öðru lagi þá var það góð samantekt frá Kristjáni Atla á Kop.is þar sem hann fer yfir stöðuna á leikmannahópnum, ef menn hafa ekki lesið þá grein hans þá mæli ég með því að það verði gert hið snarasta. Þetta tvennt hefur vakið mig til umhugsunar og má segja að það hafi veitt mér innblástur að þessum pistli.

Þegar Damien Comolli var spurður hvort að það væri enn verk að vinna fyrir Liverpool á leikmannamarkaðnum eftir að hafa keypt Downing þá svaraði hann:

,, It’s difficult to say. I’m sure there will be players going out because some players would like to play more and have more minutes. We will probably have a few loans as well, players who we would like them to develop, into the Championship or the leagues abroad. In terms of players coming in, it’s difficult to say. I think we are going to sit down, look at the situation, see where we are, see who might leave and then we will reassess later. But we have done most of what we wanted to do.“

Nú veit ég ekki hvort þetta sé hluti af einhverjum sálfræðihernaði frá honum eða eitthvað á þá leið en fyrir mitt leyti þá hljómar þetta mjög mikið þannig að við ættum ekki að búast við miklu meira frá Liverpool á leikmannamarkaðnum nema þá ef að sölur eða lán á leikmönnum verði til þess að það þurfi að styrkja liðið.

Ég er með eina kenningu, hún gæti verið að hluta til rétt en gæti líka verið alveg kolröng. Ég held að framfarir, hungur og koma ákveðinna leikmanna sem voru fyrir í röðum Liverpool gæti haft svolítið mikið að segja um hvort fleiri verða keyptir eða ekki og svo auðvitað yngri leikmennirnir sem hafa verið að sýna frábæra takta með aðalliðinu á síðustu leiktíð og núna í sumar.

Í sumar hafa leikmenn eins og Emiliano Insua og Alberto Aquilani snúið aftur til Liverpool frá þeim liðum sem þeir voru í láni hjá á síðustu leiktíð og hafa þeir verið að heilla mjög mikið í þeim æfingaleikjum sem búnir eru í sumar. Framtíð þeirra hjá Liverpool virtist vera mjög óljós og jafnvel bara mjög slæm en eitthvað hef ég á tilfinningunni að það gæti komið til með að breytast. Hlutverk, staða og leikstíll þeirra tveggja er eitthvað sem hefur verið horn í síðu Liverpool í þó nokkurn tíma og skorti oft á tíðum á síðustu leiktið. Insua spilar í hinni margumræddu vinstri bakvarðarstöðu sem hefur ásótt Liverpool í mörg ár og Aquilani er miðjumaður sem getur skapað færi fyrir sig og aðra upp úr gjörsamlega engu. Því gæti ég trúað að frammistöður þeirra í sumar gætu hafa fengið þjálfarateymið, Kenny og Comolli til að hugsa sig aðeins betur um. Það er algjör óþarfi að kaupa inn leikmenn ef þú átt réttu leikmennina til staðar nú þegar.

Það er ekki bara koma þessara tveggja leikmanna á Anfield heldur gæti hungur og vilji leikmanna eins og Joe Cole og Christian Poulsen til að vera áfram í röðum Liverpool haft eitthvað að segja. Helstu gagnrýnisraddir síðustu leiktíðar bentu sterklega á hve slæmu formi Cole var í og hve hægur eða lélegur Poulsen er. Það er erfitt að halda því fram að sú gagnrýni hafi ekki átt rétt á sér enda stóðu þeir sig alls ekki vel á síðustu leiktíð. Ég held að báðir leikmennirnir séu alls ekki sáttir með frammistöður sínar í fyrra og vilja eflaust bæta upp fyrir þær á næstu leiktíð – skiljanlega. Kannski eru þeir ekki nógu góðir en það er mjög erfitt að gefa þeim ekki það hrós sem þeir eiga skilið. Þegar maður skoðaði myndbrot og myndir frá fyrstu æfingu liðsins í sumar þá tók ég eftir því að Poulsen og Cole virðast báðir hafa unnið mjög mikið í sínum málum í sumar. Báðir virðast hafa snúið aftur í betra formi en þeir voru í þegar þeir spiluðu á síðustu leiktíð. Kannski gerðu þeir það ekki en mér finnst þeir líta mun betur út núna en fyrir nokkrum mánuðum síðan. Dalglish og Comolli tala stöðugt um það að mikilvægustu leikmenn liðsins séu þeir sem vilja vera hjá félaginu og ef það er satt að leikmennirnir hafa lagt svona mikið á sig í sumar til að geta bætt upp fyrir síðustu leiktíð þá spyr maður sig hvort þeir eigi ekki bara skilið annan séns. Við sem höfum fylgst með þessum leikmönnum í nokkur ár vitum að þeir eiga mikið inni og ég er viss um að þeir myndu báðir standa sig mun betur á næstu leiktíð ef þeir fá tækifæri til. Ég er þó kannski bara einn af mjög fáum á þeirri skoðun.

Lesið greinina frá Kristjáni Atla og skoðið hvernig leikmannahópurinn er í dag. Eins og þið sjáið þá er hópurinn núna örugglega sá sterkasti, fjölhæfasti og þéttasti sem við höfum séð í mjög langan tíma – mun betri en frábært lið okkar árið 2009 að mínu mati. Við erum með 28 leikmenn í hópnum sem eru yfir 21 árs aldurinn og þurfa að vera skráðir í leikmannahópinn fyrir Úrvalsdeildina – sem sagt þremur leikmönnum of mikið og liggur því frekar augljóslega augum uppi að þrír leikmenn verða að fara því þeir komast ekki í hópinn, fleiri ef það á að kaupa annan leikmann.

Mér líst mjög vel á hópinn eins og hann er í dag. Ég vona að við fáum að minnsta kosti einn til tvo leikmenn í viðbót en ég myndi alls ekki gráta mig í svefn ef þetta væri hópurinn sem Liverpool myndi mæta með í deildina. Mikil breidd, fjölhæfir leikmenn og mjög góðir ungir strákar fyrir utan 25-manna hópinn.

Ég er þeirrar skoðunnar að galdurinn felist ekki í því að selja 8-9 leikmenn og fá 7-9 leikmenn í staðinn. Miklar bætingar í hópinn og stórhreingerning á liðum er ekki alltaf fljót leið að árangri. Það getur gengið upp en það getur líka skemmt niður allan mórall og stemmingu sem áður hafði myndast í liðinu. Þess vegna vonast ég til að Liverpool muni ekki kaupa meira en 1-2 leikmenn í mesta lagi í sumar og selji ekki meira en 3-4 úr aðalliðshópnum. Hópurinn virðist mjög samheldinn og góður andi ríkir í liðinu, það er ekki endilega leiðin að losa sig við alla leikmenn sem eru ekki nógu góðir, á of háum launum eða eitthvað þannig á einu bretti. Ef ég ætti að giska á hverjir yrðu seldir úr þessum hóp þá myndi ég telja Brad Jones, Milan Jovanovic, David Ngog og annað hvort Raul Meireles eða Alberto Aquilani líklega til að fara – svo er auðvitað spurning með til dæmis Christian Poulsen en ég hef á tilfinningunni að hann og Cole muni vera leikmenn Liverpool á næstu leiktíð.

Einhverjir af yngri leikmönnunum fara á lán en ég held að uppöldu strákarnir og Jonjo Shelvey séu mjög ólíklegir til að fara á lán. Held það verði frekar í verkahring þeirra Ayala, Danny Wilson, Dani Pacheco, Hansen og Gulacsi að fara á lán í vetur enda framtíð þeirra kannski ekki eins björt og hjá strákum eins og Flanagan, Robinson, Coady eða Wisdom.

Ég trúi því að eitthvað er það láta Damien Comolli og Kenny Dalglish vega og meta stöðuna og skoða hvort það nauðsynlega þurfi að bæta fleiri leikmönnum í liðið. Að mínu mati er leikmannahópurinn í augnablikinu mjög góður en gott má auðvitað alltaf bæta – ég bara aldrei þessu vant vona að við förum ekki að bæta of mörgum leikmönnum við okkur núna. Held að vinstri bakvörður ætti að vera forgangur, þar á eftir miðvörður og ef þess þarf þá væri flott að fá inn einhvern ungan og góðan framherja.

Hvað finnst ykkur, ættu Kenny og Comolli að gefa vissum leikmönnum annað tækifæri eða er þörf á að stökkva strax í fleiri leikmannakaup? Endilega komið með ykkar álit í comment hér að neðan eða til @olafur_tomasson á Twitter ef þið eruð þar. Langar mjög að heyra ykkar skoðun á þessu öllu 🙂


„Frí“ frá Evrópu og áhrif þess á Liverpool

Fyrir nokkrum vikum síðan var eitt aðal umræðuefnið á meðal stuðningsmanna Liverpool hvort hentugara væri fyrir liðið að enda í 5. eða 6.sæti í deildinni, ef það hefði hafnað í því fimmta þá hefði það þýtt að félagið væri gjaldgengt í Evrópudeildina á komandi leiktíð en það sjötta þýddi að í fyrsta skiptið í langan tíma væri félagið ekki í Evrópukeppni tímabilið eftir. Liðið hafnaði í sjötta sætinu og verður því mjög skrítið að hafa enga Evrópukeppni hjá liðinu á næstu leiktíð og vonandi ekki eitthvað sem maður þarf að fara að venja sig á!

Menn komu með hin ýmsu rök fyrir því af hverju þeir voru með eða á móti því að spila í Evrópudeildinni á komandi leiktíð. Allt hefur líklega sína kosti og galla, ég hef verið að velta þessu svolítið fyrir mér núna í smá tíma og langar að reyna að sjá hvaða áhrif og afleiðingar þetta „frí“ frá Evrópukeppnum gætu haft á Liverpool. (Þetta gæti auðvitað verið mjög persónubundið og þetta er bara eins og ég sé hlutina)

Kostirnir við að vera ekki í Evrópukeppni á næstu leiktíð eru eflaust nokkrir en helsti kosturinn er klárlega sá að leikjaálagið á liðið minnkar, minna um ferðalög í miðjum vikum og allir leikir sem við komum til með að spila eru innanlands. Það er því ekki eins og liðið snúi aftur eftir að hafa spilað erfiðan útileik í Austur-Evrópu á fimmtudagskvöldi og spili erfiðan útileik á t.d. Brittania tveimur eða þremur dögum seinna. Það er vissulega kostur að geta „einblínt“ á árangur í deildinni, hvort sem það væri í formi titilbaráttu, Englandsmeistaratitils eða Meistaradeildarsæti. Það er allavega engin afsökun að leikjaálag eða óhagstæð niðurröðun leikja afsaki slæmt gengi í deildinni, engin Evrópukeppni og þá vil ég fara fram á góðan árangur í deildinni enda svo sem eina keppnin sem við þurfum að sýna hvað mestan metnaðinn í.

Það er kannski erfitt að telja upp kosti þess að Liverpool sé ekki í Evrópukeppni þetta árið, hvort svo sem hún heitir Evrópudeildin eða Meistaradeildin. Að telja upp ókosti og slæmar afleiðingar er frekar auðveldara að mínu mati enda var ég hlynntari því að ná þessu Evrópusæti en ekki.

Á síðustu leiktíð í Evrópudeildinni, sem mér fannst Liverpool svo sem aldrei leggja neinn brjálæðislegan metnað í að vinna, fengu varamenn og yngri leikmenn liðsins mikilvægar og góðar mínútur sem komu þeim í betra leikform eða fór í reynsluboltann og nýttist leikmönnunum og liðinu svo seinna meir. Martin Kelly, Jonjo Shelvey, Jay Spearing, Danny Wilson, David Ngog og fleiri ungir strákar fengu mikilvægar mínútur í keppninni og sýndu ágætis takta í henni og virtust vaxa og dafna í kjölfarið. Frábært ef við getum gefið yngri leikmönnum mikilvægar mínútur í reynslubankann með minna „mikilvægum“ leikjum. Stór ókostur.

Að keppa ekki í Evrópukeppni þýðir það að Liverpool hefur um einum minni bikar að keppa um þetta árið og að Liverpool skuli keppa um Evrópubikara er svo stór partur af sögu og stolti félagsins, þarna er mjög stór hluti af Liverpool ekki til staðar. Maður vill auðvitað sjá Liverpool spila og keppast um sigur í Meistaradeildinni en sé það ekki í boði þá eigum við að vera í Evrópudeildinni, það er bara þannig að Liverpool á heima í keppnum með stærstu og bestu félagsliðum Evrópu – þetta er eitthvað sem verður að laga á næstu leiktíð. Að geta komist í Meistaradeildina að ári liðnu yrði mjög vel þegið og þar sem liðið spilar ekki í Evrópukeppnum núna þá eiga þeir að ná góðri lokastöðu í einu keppninni sem þarf að leggja mest á sig í.

Ef að við erum að keppa við önnur lið um leikmenn á meginlandi Evrópu þá stöndum við ekki endilega svo vel að vígi að mörgu leytinu til því margir leikmenn utan Englands vilja aðallega fara til liða í Meistaradeildinni og þar sem það eru fjögur önnur lið úr sömu deild og Liverpool sem hafa upp á það að bjóða þá er kannski óhætt að viðurkenna það að í augnablikinu gæti Liverpool ekki verið jafn „álitlegur“ kostur fyrir þá enda ekki hægt að bjóða upp á neina Evrópukeppni þetta árið. Kannski má líta svo á það þannig að Liverpool sé að smeygja sér frá nokkrum byssukúlum með því að þessir leikmenn velji Meistaradeildina fram yfir Liverpool, þetta eru þá alveg örugglega ekki leikmennirnir sem vilja fara til Liverpool til þess að koma þeim aftur á toppinn heldur vilja þeir aðeins fara til liða sem eru nú þegar á toppnum. Okkur tókst að fá Suarez án þess að geta bókað Evrópusæti að ári, við höldum enn leikmönnum eins og Reina, Gerrard og fleirum sem eiga að spila í Meistaradeildinni á hverju ári svo það er klárt mál að metnaður félagsins liggur hátt og menn séu tilbúnir að leggja sitt að mörkum til að það náist. Það er því kannski ekki svo slæmt að „missa“ af svona leikmönnum, það gæti einmitt verið ástæðan fyrir því að Liverpool virðist horfa svona mikið til Englands núna í leit sinni að mögulegum leikmannakaupum því þar eru leikmenn sem vilja líklegra frekar koma til Liverpool með „rétta“ hugarfarið.

Það að Liverpool sé ekki í Evrópukeppnum er slæmt að mörgu leyti en þar sem að ný lög um rekstur og fjárhag félagsliða í Evrópu eru að fara að taka gildi fljótlega þar sem tekjur félagana skipta öllu máli þá er mjög slæmt að liðið skuli ekki geta keppt í Evrópukeppnum á þessum tímapunkti. Tekjur þess að spila í slíkum keppnum geta verið mjög miklar fyrir félögin. Þau eru að fara að spila fleiri leiki sem þýðir meiri pening í gegnum miðasölu á leikjum, aukinn peningur vegna sjónvarpsréttar á leikjunum og svo er auðvitað verðlaunafé eftir því sem liðin ná lengra í þessum keppnum. Að vera í Meistaradeildinni skilar auðvitað meiri pening í kassann en peningurinn sem kemur úr hinni keppninni er alltaf vel þeginn og sérstaklega á tímum sem þessum.

Ég vil sjá Liverpool komast strax aftur í Evrópukeppni eftir næsta tímabil og þá auðvitað helsta í Meistaradeildina. Að Liverpool spili ekki leiki í miðri viku í Evrópukeppni, að við fáum ekki Evrópukvöldin frægu á Anfield, einum færri titill til að berjast um og auðvitað verða færri Liverpool leikir sem við getum horft á í vetur – svo í guðanna bænum Liverpool, komið ykkur nú aftur í keppni þeirra bestu!


Þjálfara- og leikmannamál

Á síðustu dögum virðast hreyfingar Liverpool á leikmannamarkaðnum vera engar! Fyrir slúðurþyrsta einstaklinga eins og mig þá er þetta mikil andleg barátta. Ég renni yfir Twitter og sé ekki neitt, fer á slúðursíðuna á Facebook og sé að ég hef ekki misst af neinu merkilegu, ég skoða allar hugsanlegar Liverpool/fótboltasíður og enn ekki neitt. Mér finnst stundum eins og ég sé að leita að einhverju sem er bara ekki til.

Það eina sem við virðumst frétta af slúðri tengdum leikmönnum sem hafa verið sterklega orðaðir við Liverpool undanfarið er að þeir virðast margir hverjir vera á leiðinni eða jafnvel farnir annað. Connor Wickham, ungi framherjinn sem var sterklega orðaður við Liverpool, er nú farinn til Sunderland fyrir einhverjar 8-13 milljónir punda. Persónulega hefði ég mjög mikið vilja fá hann til Liverpool enda gífurlega mikið efni þar á ferðinni, hins vegar þá spyr maður sig hvort hann hafi verið það ofarlega á óskalistanum hjá Liverpool því það virtist ekki líta út þannig að Liverpool hafi barist með kjafti og klóm við að klófesta hann því ég held að við ættum ekki í neinum vandræðum með að yfirbjóða þetta kaupverð ef okkur hefði langað til þess.

Svo virðist sem að Gael Clichy sé á leiðinni til Manchester City frá Arsenal, þá virðist sem að enn eitt skotmark Liverpool virðist vera að renna þeim úr greipum. Í kjölfarið þá mun Arsenal líklega þrýsta harðar á að landa Jose Enrique, öðru skotmarki Liverpool í sumar, og sömuleiðis ef þeir missa Cesc Fabregas eða Samir Nasri úr sínum röðum þá er ekki ólíklegt að þeir muni leggja mikinn metnað í að fá Juan Mata, öðru meinntu skotmarki Liverpool, í sínar raðir. Svo þarf maður vart að nefna það að Liverpool hafði verr í baráttunni við Manchester United um kaup á Phil Jones og Ashley Young.

Eina sem virðist vera í gangi ef að það er hægt að segja það eru meinntar viðræður Liverpool vegna kaupa á Charlie Adam og Stewart Downing. Þeir virðast vera hvað efstir á óskalista Liverpool þessa stundina og virðist sem Liverpool sé tilbúið að láta eftir í baráttunni um aðra leikmenn til þess að geta klárað kaupin á þessum tveimur leikmönnum.

Við vitum bara ekkert hvað er í gangi hjá Liverpool þessa dagana, það virðist nefnilega enginn gera, og það er allt örugglega samkvæmt planinu hjá félaginu. Þetta slúður sem hefur verið að ganga hvað mest um net- og fjölmiðla virðist vera til þess að önnur lið spýta í lófana til að missa skotmörk sín ekki til Liverpool. Ég hef verið að spá í því hvort þetta sé allt hluti af planinu hjá Liverpool, að senda út og gefa í skyn í gegnum fjölmiðla að þeir hafi áhuga á hinum og þessum til þess eins og ýta samkeppni sína á þá leikmenn í þeirri von um að baráttan um raunveruleg skotmörk minnkar. Þetta myndi ég alls ekki útiloka og þetta er að mig minnir eitthvað sem að þeir hjá Boston Red Sox gera svolítið mikið af – þeir eru víst alveg mjög „sneaky“ á leikmannamarkaðnum í Major League hafnaboltanum.

Tökum bara vinstri bakvarðarstöðuna sem dæmi. Liverpool vantar vinstri bakvörð, City þurftu (að mínu mati) að fá betri mann í þá stöðu, Arsenal að missa sinn besta mann í þessa stöðu og því alls ekki ólíklegt að liðin berjast um 3-4 sömu leikmennina. Í þessu tilfelli held ég að menn eins og Gael Clichy, Aly Cissokho, Leighton Baines og Jose Enrique hafi allir verið undir smásjá þessara liða (nema auðvitað Clichy og Arsenal!). Ef við gefum okkur það að Cissokho og Baines eru kannski helstu skotmörk Liverpool í sumar þá er það alveg frábært ef hægt væri að beina City og Arsenal að hinum leikmönnunum og koma þeim úr baráttunni um þá sem við viljum hvað mest. Ef þetta er eitthvða á þessa leið þá er það mjög svo sniðugt finnst mér.

Ég held að Liverpool lumi á ýmsu óvæntu fyrir okkur í sumar og við verðum bara að sýna þolinmæði, sem er auðvitað hægara sagt en gert!

Eina hreyfingin sem virðist vera á leikmannamálum hjá Liverpool þessa dagana er að búið er að semja við þrjá mjög efnilega stráka sem voru að fá sinn fyrsta atvinnumannasamninginn hjá félaginu. Umræddir leikmenn; Tyrell Belford, Stephen Sama og Adam Morgan sem hafa allir farið mikinn með unglingaliðunum og eru mikil efni sem væntanlega eru bundnar miklar vonir við í framtíðinni. Frábært að sjá að Akademían sé að skila af sér efnilegum og góðum leikmönnum. Svo er eitthvað talað um lánssamning Peter Gulacsi til Hull og að Alexander Doni gæti komið í kjölfarið frá Roma til Liverpool. Gríska varnartröllið Sotirios Kyrgiakos virðist hafa unnið sér inn ársframlengingu á samningi sínum og verð ég að viðurkenna að ég er alveg nokkuð sáttur með það. Hann hefur yfirleitt alltaf staðið sig vel, virðist vera með gott hugarfar á vellinum og æfingasvæðinu og virðist njóta mikillar virðingu samherja sinna – ég veit allavega fyrir víst að ég myndi ekki þora að sýna þessum manni óvirðingu!

Sammy Lee hefur svo yfirgefið Liverpool eftir að hafa verið aðstoðarstjóri Rafa Benitez, Roy Hodgson og Kenny Dalglish síðan árið 2008. Ég veit náttúrulega ekkert um það hvort að Sammy hafi ekki þótt standa sig í starfinu, vilji fara annað eða hvað það nú er en það hljóta allir stuðningsmenn Liverpool að kveðja Sammy með söknuði og virðinu enda framlag hans til félagsins sem leikmaður á gullaldarárunum og sem þjálfari eða aðstoðarstjóri á erfiðum tímum, alveg ómetanlegt.

Það liggur alveg augum uppi, finnt mér, að Steve Clarke verður núna opinberlega hægri hönd Kenny Dalglish og mun nýr þjálfari koma inn í þjálfarateymið, mögulega fleiri en einn. Þeir sem eru helst nefndir til sögunnar eru gamla Liverpool-kempan Gary McAllister sem örugglega allir stuðningsmenn Liverpool yrðu mjög glaðir að sjá aftur í félaginu enda nýtur hann gífurlegrar virðingu stuðningsmanna og leikmanna liðsins, Kevin Keen sem yfirgaf West Ham fyrir skömmu eftir að hann fékk ekki stjórastöðuna þar á bænum eftir að Avram Grant var rekinn er einnig talinn líklegur ásamt Paul Clement, aðstoðar-aðalliðsþjálfara Chelsea en hann þekkir vel til Steve Clarke. Svo heyrði ég nafn Karl Robinson nefnt í tengslum við þessa stöðu en hann er knattspyrnustjóri Milton Keynes Dons í 2.deild.

Nú er búið að opna leikmannamarkaðinn í Evrópu og nú er ekkert að vanbúnaði fyrir Liverpool að láta hjólin rúlla. Henderson er kominn, sem er frábært, en nú þarf að fara að klára fleiri kaup og sölur. Vonandi mun eitthvað gerast í þessum málum eftir helgi, ég allavega get ekki beðið lengur. Það eru tveir mánuðir eftir af leikmannamarkaðnum og ég er strax að verða uppgefinn – ég er alveg viss um að þetta verði minn bani!