Kaupæðið í Liverpool

Adam LallanaNæstum-því-Englandsmeistarar Liverpool hafa heldur betur verið duglegir í leikmannaglugganum í sumar. Enn er um það bil ein og hálf vika eftir af júlí mánuði og ekki er það langt síðan Úrvalsdeildin kláraðist. Liverpool, sem var hársbreidd frá því að vinna loksins Englandsmeistaratitil á síðustu leiktíð, er komið aftur í Meistaradeild Evrópu eftir alltof langa bið. Félagið virðist nýta sér þátttökuréttinn í keppninni til hins ítrasta ásamt mikilli aukningu í gróða frá auglýsingjatekjum, sjónvarpssamningum og fé fyrir þátttöku í Meistaradeildinni, með því að vera búið að næla sér í fjóra nýja leikmenn.

Fjórir nýjir leikmenn hafa nú þegar bæst við í hópinn. Southampton tvíeykið Rickie Lambert og Adam Lallana, hinn bráðefnilegi og öskufljóti Lazar Markovic kom frá Benfica og þýska tröllið Emre Can, Der Wunderkind eins og ég vil meina að hann sé kallaður í heimalandinu (hann er það samt ekki), kom frá Leverkusen. Fínt mál. Fjórir nýjir leikmenn sem kosta einhverjar 50-60 milljónir punda. Liverpool er heldur betur að spreða, ekki satt?

Þetta virðist þó bara vera byrjunin á eyðslu Brendan Rodgers og félaga í sumar sem virðist staðráðnir í að styrkja hópinn fyrir komandi leiktíð. Í þessari viku gæti Liverpool hugsanlega verið að næla í þrjá leikmenn til viðbótar. Loic Remy gæti þess vegna verið í flugvél á leiðinni til Boston í þessum töluðu orðum til að hitta starfsmenn félagsins, gangast undir læknisskoðun og klára átta milljóna punda félagsskipti frá QPR til Liverpool. Belgíska ungstirnið Divock Origi sem lét ljós sitt skína á Heimsmeistaramótinu gæti sömuleiðis klárað sín mál í þessari eða næstu viku og orðið leikmaður liðsins þó hann færi líklega aftur á láni til Lille sem Liverpool kaupir hann þá frá. Sterkar heimildir virðast einnig vera fyrir því að króatíski varnarmaðurinn Dejan Lovren sé einnig að fara að klára fimmtán til tuttugu milljóna punda félagsskipti sín til Liverpool frá Southampton og yrði þá þriðji leikmaður Southampton til að skipta yfir í Liverpool í sumar. Liverhamptonpool? Southpool? Liverhampton?

Lazar Markovic

Lazar Markovic

Klári Liverpool þessi þrjú félagsskipti þá hafa sjö nýjir leikmenn gengið til liðs við félagið (sex koma inn í hópinn ef Origi fer aftur á lánssamningi til Lille). Það er þó afar líklegt að Liverpool sé ekki enn hætt á markaðnum þó þetta klárist í næstu viku. Liðið mun líklega reyna að klára samningaviðræður við Sevilla um kaup á vinstri bakverðinum Alberto Moreno, sem lítur skemmtilega út eins og óskilgetið afkvæmi Xabi Alonso og Steven Gerrard, og svo heyrast orðrómar um að Rodgers vilji bæta einum háklassa miðjumanni í liðið (og hver veit nema hann leiti að öðrum sóknarmanni í viðbót til að fylla skarð Suarez).

Eyðsla Liverpool gæti því farið vel yfir 100 milljónir punda, sem verður þó kannski ekki mikil eyðsla því félagið hefur selt Suarez fyrir 75 milljónir punda, Borini og Assaidi gætu farið fyrir samanlagðar 21 milljón punda og þá gætu leikmenn eins og Martin Kelly, Kolo Toure, Daniel Agger, Pepe Reina, Sebastian Coates og Lucas Leiva mögulega yfirgefið líka og bætt enn meiri pening í kassan. Því gæti Liverpool kannski farið langleiðina með því að vinna upp eyðslu liðsins. Liverpool á nóg af pening til að leika sér með án þess að sölur fari að telja í. Af hverju ætli Liverpool sé að eyða í sumar?

Tímasetning og aðstæður

Rickie Lambert: Liverpool's number 9!

Rickie Lambert: Liverpool’s number 9!

Síðustu félagsskiptagluggar hafa ekki reynst Liverpool sérstaklega vel. Liðið hefur misst af mörgum leikmönnum; ýmist vegna þess að önnur félög heilluðu leikmenn meira, félagið var yfirboðið eða að samningaviðræður við önnur félög um kaupverð höfðu siglt í strand. Á síðustu leiktíð missti liðið af því að kaupa (vegna ólíkra ástæðna) Willian, Henrik Mkhitaryan, Diego Costa, Mohammed Salah og Yevhen Konoplyanka svo einhverjir séu nefndir. Liðið nældi í mjög fína leikmenn í Mamadou Sakho og Simon Mignolet sem, til skamms tíma allavega, eru þeir einu sem hafa fest sig í sessi hjá liðinu frá síðasta sumarglugga. Iago Aspas og Luis Alberto hafa báðir verið lánaðir til Spánar, Kolo Toure líklegast á útleið og Tiago Ilori, sem á líklega bjarta framtíð hjá félaginu verður lánaður út til að fá meiri leikreynslu. Victor Moses og Aly Cissokho sem voru á láni hjá liðinu í fyrra gerðu lítið sem ekkert og voru sendir aftur til baka.

Á leiktíðinni þar á undan var Nuri Sahin sendur aftur til baka til Real Madrid eftir að Rodgers var ekki nógu ánægður með frammistöðu hans þegar hann kom á láni. Fabio Borini, sem gekk illa að aðlagast á sinni fyrstu leiktíð hjá Liverpool vegna meiðsla var lánaður til Sunderland í fyrra og hugsanlega seldur í sumar. Assaidi spilaði lítið á sinni fyrstu leiktíð hjá Liverpool, var lánaður til Stoke í fyrra og verður líklega seldur þangað í sumar. Liverpool hefur ekki vegnað rosalega vel á markaðnum hingað til þó vissulega hafa verið keyptir frábærir leikmenn eins og Philippe Coutinho, Daniel Sturridge og já, ég ætla að henda Joe Allen hérna líka – hann átti erfitt uppdráttar vegna meiðsla á sinni fyrstu leiktíð hjá Liverpool en er að finna sig núna og spila vel.

Í ár, eftir frábært tímabil sem kom Liverpool aftur á kortið sem frábært sóknarlið sem barðist um deildartitilinn og tryggði sig í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, er kjörið tækifæri fyrir félagið að spýta í lófana og styrkja sig af ráði. Félagið hefur reynt að ná í hæfileikaríka leikmenn en gengið brösulega með það og hafa þá þrft að reyna að taka „sénsa“ á markaðnum með því að reyna að finna mikið af óslípuðum demöntum og leita undir steinum sem aðrir hafa ekki lyft til að finna eitthvað nytsamlegt. Nú ætti þeirri tíð sem liðið þarf að taka séns á leikmönnum eins og Aspas, Moses og Cissokho að vera lokið.

Félagið var sniðugt að næla í nokkra menn á stuttum samningum, lándílum eða fyrir lágt fé sem voru líklega ekki nægilega góðir en mjög þarfir svo félagið hefði þá einhverja breidd. Nú ætti Liverpool að geta fengið marga af þeim leikmönnum sem þeir ættu að vilja fá, ekki satt?

Stefna og styrking

Emre Can

Emre Can

Liverpool hefur misst sinn besta leikmann frá síðustu leiktíð eftir að Luis Suarez var seldur á metfé til Barcelona en að mínu mati hefur hópurinn frá því síðasta sumar styrkt sig. Kannski reynist það Liverpool-liðinu það of mikill missir að missa sinn besta leikmann en fjöldi frambærilegra eða mjög góðra leikmanna hefur líklega ekki verið meiri en hann virðist ætla að vera í sumar.

Victor Moses, Iago Aspas og Luis Alberto voru sóknarkostir Liverpool utan hefðbundins byrjunarliðs á síðustu leiktíð og áttu samanlagt eitt mark og tvær stoðsendingar í deildinni í fyrra. Glataður árangur, ef árangur skal kalla. Þeir eru nú allir á braut og í stað þeirra hafa Lazar Markovic, Adam Lallana, Rickie Lambert og fljótlega Loic Remy bæst í hópinn. Þarna er klárleg styrking á hópnum! Lallana, Lambert og Remy hafa allir reynslu úr Úrvalsdeildinni og á síðustu leiktíð skoruðu Lambert og Remy báðir yfir vel tíu mörk í deildinni og Lallana með níu, ásamt fjölda stoðsendinga. Bara það að fá þá í hóp með Sturridge, Coutinho, Sterling og jafnvel Borini (sem skoraði sjö mörk fyrir Sunderland á síðustu leiktíð) þá hafa gæðin í sóknarlínunni aukist og dreifst betur en á síðustu leiktíð (þó skarð Suarez sé enn mjög stórt og kannski ekki enn nægilega vel fyllt).

Dejan Lovren sem vonandi kemur líka til félagsins fljótlega mun einnig koma til með að styrkja hópinn varnarlega en hann er flottur miðvörður á góðum aldri sem gæti komið til með að nýtast bæði með Skrtel og Sakho við hlið sér, sem og auðvitað Agger líka en hugsanlega gæti hann komið til með að yfirgefa félagið í sumar og ýta kaup á Lovren nokkuð undir það held ég.

Tom Werner, einn af eigendum Liverpool, sagði í viðtali fyrir rúmlega tveimur árum síðan á meðan Dalglish var enn stjóri Liverpool:

„I would say we certainly have the resources to compete with anybody in football,“

Ég er ekki á því að hann hafi logið þarna við sáum í sumarglugganum undir stjórn Kenny Dalglish að félagið átti pening þó svo að sá peningur hafi nýst liðinu fremur illa það sumarið, fyrir utan auðvitað Jordan Henderson sem hefur verið frábær hjá félaginu undir stjórn Rodgers. Hins vegar þá hafa eigendurnir þurft að sæta gagnrýni fyrir að halda of fast um veski félagsins og með því að virðast ekki tilbúnir að borga aukalega til að fá ákveðna leikmenn til liðsins. Liverpool hefur verið sett, undir þeirra stjórn, sú princip regla að kaupa „value for money“ sem þýðir að kaupa leikmenn sem endurgreiða peningin sem þeir eru keyptir á með frammistöðum sem er annað hvort „jöfn“ því sem eytt var í þá eða þá jafnvel meiri sbr. Luis Suarez, Daniel Sturridge, Philippe Coutinho, Jordan Henderson osfrv.

Liverpool hefur eflaust fjármunina í að kaupa einna stærstu bita markaðarins en þeir virðast telja að þeir geti fengið betri díla fyrir leikmenn sem eru ekki komnir á þann stall á ferli sínum að kaupverð þeirra er komið í mjög háar hæðir. Það virðist vera upp á teningnum enn sem komið er í sumar, góðir leikmenn hafa verið keyptir á fínum verðum en enginn þeirra er stjarna. Liverpool nálgast markaðinn með það í huga að kaupa „rétta“ kostinn frekar en þann „besta“. Við skulum sjá hvað setur.

Leikmannakaup Spurs í fyrra

Leikmannakaup Spurs í fyrra

Er Liverpool að fara að Spurs-a?

Síðastliðið sumar seldi Tottenham einn af aðalkeppinautum Liverpool síðustu ára, lið sem hefur verið á svipuðum slóðum og Liverpool síðustu ár (jafnvel með smá yfirhönd hvað lokaárangur í deildinni varðar fyrir síðustu leiktíð), sinn allra besta leikmann síðustu ára Gareth Bale til Real Madrid fyrir himinháa fjárhæð. Félagið ákvað því að nýta þann pening og keypti einhverja sex eða sjö leikmenn fyrir aðallið sitt fyrir þann pening og hefur líklega horft á málið eins og Liverpool virðist gera núna. Missa einn frábæran en gera liðið sterkara með sex eða fleiri góðum eða mjög góðum leikmönnum.

Ævintýri Spurs bar ekki mikinn árangur á síðustu leiktíð. Andre Villas Boas þáverandi stjóri liðsins gekk illa að móta lið úr þessum nýju leikmönnum og var loks rekinn eftir skelfilega/stórkostlega (fer eftir því hvoru meginn við borðið maður situr) útreið gegn Liverpool á White Hart Lane þegar Liverpool kjöldróg Spurs 5-0 á útivelli. Inn kom „skemmtikrafturinn“ Tim Sherwood en hann náði ekki mikið betri árangri með þetta lið en undir hans stjórn fór Christian Eriksen, einn leikmaðurinn sem þeir keyptu sumarið áður, að detta í gang. Það var þó eitthvað jákvætt fyrir þá.

Lið Tottenham olli miklum vonbrigðum og náði liðið aldrei nokkru flugi. Einhverjir leikmannana sem keyptir voru í fyrra hafa verið orðaðir í burtu frá félaginu, sem segist ekki ætla að vera mjög virkt á markaðnum í sumar, en nýr stjóri þeirra gæti kannski reddað einhverju og nýtt þá leikmenn sem félagið eyddi fúlgum fjár í.

Í stað þess að styrkja sig með peningunum sem þeir fengu fyrir Bale þá náðu þeir í raun aldrei að gera það hingað til og má í raun segja að þeir hafi veikst á síðustu leiktíð. Ég meina, þeir enduðu með +4 í markahlutfalli á síðustu leiktíð!

Þetta óttast margir stuðningsmenn Liverpool og þetta er líklega það sem stuðningsmenn annara liða vonast eftir að komi til með að gerast. Er Liverpool jafn líklegt til að mistakast jafn illa og Spurs gekk að leika þennan leik eftir á síðustu leiktíð? Mitt svar er nei.

Maður horfir á kaup Spurs á síðustu leiktíð og þau ná ekki beint saman, það er ekki nein skýr lína á milli þeirra og erfitt að sjá út hvað sá sem keypti þennan hóp hugðist ná úr honum eða hvernig hann ætlaði að spila til að ná árangri. Þeir keyptu fína leikmenn, gæðalega séð eru þeir ekki slakir, en saman í hóp virka þeir ekki samstíga.

Þarna strax held ég að Liverpool sé mun betur statt til að leika þennan leik. Liðið hefur undir stjórn Brendan Rodgers byggt upp sinn stíl og mótað góða liðsheild með klára „stefnu“ hvað stjórinn vill fá út úr leikmönnum sínum og liði. Hápressa, hraði, tækni, útsjónarsemi, vinnusemi og áræðni. Flest allir, ef ekki allir, leikmenn sem Liverpool hefur keypt í sumar tikka í flest þessi atriði.

Lið Liverpool er enn það sama og það var í fyrra, fyrir utan Suarez, og miðað við hversu sterkt það er þá liggur þannig séð ekki eins mikið á að troða nýju leikmönnunum inn og það er því hægt að koma þeim „hægt og rólega“ í takt við liðið. Flestir þessara leikmanna komu frá eða hafa verið í liðum sem spila með svipuðum hætti og Liverpool, til að mynda Southampton, Leverkusen (og önnur þýsk lið) og Benfica. Þeir ættu því að þekkja til skipulags og áherslum þjálfarans.

Margir eru ekki hrifnir af því en það að kaupa leikmenn úr Úrvalsdeildinni er langt frá því að vera slæmur hlutur. Verðmiðar kannski hærri en annars staðar miðað við gæði og allt það en þarna held ég að ef maður kaupir „rétt“ þá minnka líkurnar á að leikmaður nái ekki að aðlagast deildinni. Lovren, Lallana, Lambert og Remy hafa allir reynslu af Úrvalsdeildinni sem gerir það líklega að verkum að þeir eru betur staddir í að koma strax inn í byrjunarliðið en til dæmis ungu strákarnir Can og Markovic sem koma úr öðrum deildum og gætu þurft smá aðlögunartíma. Þarna gerði Spurs kannski smá vitlaust og keyptu að ég held alla leikmenn sína síðastliðið sumar úr öðrum deildum, þeir þurftu því allir að aðlagast nýrri deild, nýju liði og nýjum aðstæðum.

Staða Liverpool eftir að hafa blandað sér í titilbaráttu og tryggt þátttökurétt í Meistaradeildinni með hörku spennandi og flott lið þýðir líklega að Liverpool sé í betri stöðu að fá leikmenn til sín en Spurs var síðastliðið sumar.

Næstu mánuðir munu skýra fyrir okkur hvort Liverpool sé að taka skrefið upp á við; halda sér í titilbaráttu, gera vel í Meistaradeild og jafnvel vinna titla eða hvort að liðið sé bara að  „gera Spurs“.